Sveitakeppni unglinga - Þorlákshöfn, fimmtudagur 19. ágúst 2010
20.8.2010 | 06:34
Örstutt fréttauppfærsla frá okkur GA mönnum hér í Sveitakeppni 15 ára og yngri á Þorlákshöfn.
Við héldum af stað í morgun um 8:30, eftir smá kerru vandræði, þar sem kerran sem átti upprunalega að flytja varninginn reyndist vægast sagt of lítil og hefði líklega ekki tekið helminginn af því sem þurfti. Málið var snaggaralega leyst þar sem Óli golfkennari lánaði vinnubílinn sinn og þangað var hægt að skella 600 kílóum af golfdóti án vandræða og svo var brunað af stað.
Við renndum í Mosfellsbæ og þar var Kentökkískum kjúkling gerð góð skil að hætti golfara og þaðan lá leiðin beint á Þorlákshöfn þar sem æfingahringur var spilaður. Á kjúklingastaðnum skildu leiðir við eldri sveitina/stelpurnar, þar sem þau keppa á Suðurnesjum, en við hér á Þorláksvelli í Þorlákshöfn.
Æfingahringurinn var spilaður í algeru blíðskaparveðri, 17 gráður og sól. Strákarnir tóku út völlinn og stúderuðu fyrir morgundaginn. Flatir og brautir eru frábærar og þeim líst mjög vel á völlinn og hlakka til að glíma við hann á morgun, en þá verða spilaðar 18 holur í höggleik. 4 leikmenn eru í hverri sveit og gildir skor hjá 3 bestu.
Eftir æfingahringinn, um 21:30, var farið eftir á hinn sívinsæla veitingastað "Svarti sauðurinn" hér í Þorlákshöfn þar sem biðu okkar pizzur og ropvatn af bestu gerð og óhætt að segja að þessar kræsingar hafi runnið vel niður í svangan úlfahópinn.
Síðan var haldið á Stokkseyri á hið margrómaða gistiheimili "Kvöldstjarnan" þar sem hópurinn kom sér fyrir og sofnaði svefni hinna réttlátu.
Það er ræs hjá A-sveit kl. 6:45 og 8:15 hjá B-sveit þannig að morgundagurinn verður tekinn snemma.
Við látum fylgja með nokkrar myndir frá deginum í dag hér á facebook (Facebook aðgangur er nauðsynlegur til að geta séð myndirnar).
Smelltu hér til að sjá myndir frá fimmtudeginum
Kveðja
Fararstjórar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.